Samkvæmt nýrri verðbólguspá Englandsbanka má gera ráð fyrir því að verðbólga á Bretlandi fari yfir 3% á næstu vikum, jafnvel fram á sumar, en í desember sl. mældist 12 mánaða verðbólga 2,9% og hefur þá ekki verið hærri í tæp 3 ár.

Mervin King, bankastjóri Englandsbanka, sagði á blaðamannafundi í morgun þegar hann kynnti verðbólguspána, að hækkun á sölu- og virðisaukaskatti og hækkandi eldsneytisverði væri helst um að kenna.

Á Bretlandi ríkja strangar reglur um verðbólgumarkmið Englandsbanka sem er 2%. Þegar verðbólgan fer yfir 3% ber bankastjóra Englandsbanka að skila sérstakri skýrslu til fjármálaráðherra Bretlands um það hvað orsaki svo háa verðbólgu og hvernig bankinn ætli að bregðast við verðbólgunni.

King segist þó gera ráð fyrir því að verðbólgan lækki hratt aftur í vor og fari þá undir verðbólgumarkmið bankans. Í spá Englandsbanka er gert ráð fyrir því að 12 mánaða verðbólga mælist síðan áfram undir 2% á næstu árum.