Englandsbanki, seðlabanki Bretlands, hefur hækkað meginvexti bankans úr 0,5% í 0,75% í von um að stemma stigu við vaxandi verðbólgu í landinu. Vextirnir eru nú orðnir þeir sömu og þeir voru fyrir faraldur.

Bankinn hefur nú hækkað vexti um 65 punkta á skömmum tíma. Þeir voru hækkaðir úr 0,1% í 0,25% í desember og síðan úr 0,25% í 0,5% í febrúar, að því er kemur fram í grein hjá Financial Times. Átta af níu nefndarmönnum peningastefnunefndar studdu 25 punkta vaxtahækkun. Einn nefndarmanna vildi halda vöxtunum í 0,5%.

Sjá einnig: 5,5% verðbólga í Bretlandi

Verðbólga í Bretlandi mældist 5,5% í janúar, en hún var síðast jafn mikil árið 1992. Hún hefur mælst fyrir ofan 2% verðbólgumarkmið Englandsbanka sex mánuði í röð, en verðbólgutölur fyrir febrúar birtast í næstu viku, þann 23. mars.

Í greinargerð peningastefnunefndar er áætlað að verðbólgan muni halda áfram að vaxa á komandi mánuðum. Þannig verði hún orðin 8% á öðrum ársfjórðungi og jafnvel 10% síðar á árinu.