Englandsbanki, seðlabanki Bretlands, hefur hækkað meginvexti bankans úr 0,25% í 0,5% í von um að stemma stigu við vaxandi verðbólgu í landinu. Verðbólga í Bretlandi mældist 5,4% í desember en hún hefur ekki verið meiri í þrjátíu ár, líkt og Viðskiptablaðið greindi frá á dögunum.

Bankinn hækkaði vextina úr 0,1% í 0,25% í desembermánuði síðastliðnum og hefur því hækkað vextina um 40 punkta á skömmum tíma. Í tilkynningu segir bankinn að hann hafi þurft að bregðast við miklum verðþrýstingi og ört hækkandi innlendum kostnaði.

Ekki voru allir nefndarmenn peningastefnunefndar sammála um vaxtaákvörðunina. Fimm nefndarmenn, þar á meðal seðlabankastjóri Andrew Bailey, voru sammála um að hækka vextina um 25 punkta. Hinir fjórir nefndarmennirnir vildu ganga enn lengra og hækka vextina um 50 punkta.

Bankinn spáir því að verðbólga í Bretlandi muni fara upp í 7,25% í apríl, þegar þak á orkuverð verður afnumið af breskum yfirvöldum. Sérfræðingar telja að rafmagnsreikningur Breta gæti hækkað um 50% í kjölfar þessa.