Englandsbanki, seðlabanki Bretlands, hefur hækkað meginvexti bankans um 0,5 prósentustig upp í 2,25%, en vextirnir hafa ekki verið hærri síðan í fjármálakreppunni 2008. Verðbólga í Bretlandi mældist 9,9% í ágúst.

Bankinn fór ekki í eins skarpa vaxtahækkun og Bandaríski seðlabankinn, sem hækkaði vexti um 0,75 prósentustig nú í vikunni.

Nefnarmenn peningastefnunefndar voru þó ekki einróma í ákvörðun sinni um 50 punkta vaxtahækkun. Þannig skiptist álit þeirra á þrenna vegu. Fimm af níu nefndarmönnum studdu vaxtahækkunina, þar á meðal Andrew Bailey seðlabankastjóri og Huw Pill, aðalhagfræðingur bankans. Þrír meðlimir nefndarinnar, þau Dave Ramsden, aðstoðarseðlabankastjóri, Jonathan Haskel og Catherine Mann, vildu 75 punkta vaxtahækkun. Að lokum vildi Swati Dhingra einungis 25 punkta vaxtahækkun.

Sjá einnig: Fresta vaxtaákvörðun vegna fráfalls drottningarinnar

Upprunalega stóð til að bankinn myndi tilkynna um vaxtaákvörðun sína 15. september. Ákvörðuninni var hins vegar frestað um viku vegna andláts Elísabetar Bretadrottningar. Þetta er sjöunda vaxtahækkun bankans í röð, en bankinn hefur nú hækkað vexti um 2 prósentur á þessu ári.