Peningamálanefnd Englandsbanka tilkynnti í morgun að stýrivöxtum yrði haldið óbreyttum í 5%. Ákvörðunin kom ekki á óvart, en samkvæmt könnun sem Dow Jones-fréttaveitan gerði á meðal 20 hagfræðinga áttu allir von á óbreyttum vöxtum.

Englandsbanki glímir við þann vanda – líkt og svo margir aðrir seðlabankar í heiminum – að verulega mun draga úr hagvexti á þessu ári, samfara auknum verðbólguþrýstingi.

Ljóst þykir að Mervyn King, seðlabankastjóri, mun þurfa að skrifa sérstakt bréf til Alistair Darling, fjármálaráðherra, þar sem hann gerir grein fyrir ástæðum þess af hverju verðbólga mælist hærri en 3%. Það væri þá aðeins í annað skipti sem King þyrfti að grípa til þess frá því að hann tók við embætti.

Væntingar um að Englandsbanki myndi lækka stýrivexti um 25 punkta höfðu hins vegar aukist á undanförnum dögum, sérstaklega eftir að hagtölur í vikunni sýndu að þjónustugeirinn, sem stendur undir tveimur þriðju af vergri landsframleiðslu, hafði ekki vaxið jafn hægt í aprílmánuði í fimm ár.

Það varð til þess að sumir hagfræðingar og fjárfestar breyttu stýrivaxtaspám sínum. Framvirkir samningar sýna nú að meiri líkur eru taldar á því að Englandsbanki ráðist í stýrivaxtalækkun í júní, enda þótt margir telji líklegt að bíða þurfi fram í júlí áður en vextir verði lækkaðir í 4,75%.