Englandsbanki hækkaði stýrivexti sína um 25 punkta í gær - upp í 5,75% - og hafa vextir bankans ekki verið hærri frá því í marsmánuði árið 2001. Þetta er jafnframt í fimmta skipti sem bankinn hækkar hjá sér stýrivexti síðan í ágúst á síðasta ári. Flestir markaðsaðilar höfðu gert ráð fyrir stýrivaxtahækkun, en í könnun sem Dow Jones fréttastofan gerði á meðal fjórtán hagfræðinga í síðustu viku, spáðu allir því að bankinn myndi hækka vexti um 25 punkta.

Í tilkynningu sem stjórn Englandsbanka sendi frá sér kemur fram að undirliggjandi verðbólguþrýstingur fari vaxandi. Af þeim sökum hafi verið nauðsynlegt fyrir bankann að taka þá ákvörðun að hækka stýrivexti ef hann ætlaði að ná markmiði sínu um að halda verðbólgu undir 2%. Verðbólga í maímánuði mældist 2,5% og hafði þá lækkað nokkuð frá því í mars þegar hún var 3,1%.

Þrátt fyrir að Englandsbanki viðurkenni að ekki sé um að ræða launaskrið í Bretlandi um þessar mundir, þá sé viðskiptalífið engu að síður ekki almennilega í stakk búið til að mæta hugsanlegum launahækkunum á næstunni, en hættan á slíkri þróun er fyrir hendi að mati stjórnar bankans.

Enda þótt stýrivaxtahækkun Englandsbanka hafi verið viðbúin brást viðskiptalífið fremur illa við ákvörðuninni. Steve Radley, aðalhagfræðingur EEF, sem eru hagsmunasamtök breskra iðnaðarfyrirtækja, segir í samtali við Financial Times að "fyrri stýrivaxtahækkanir bankans hafi verið nauðsynlegar til að halda verðbólgunni þar í landi í skefjum. Hins vegar teljum við að í þetta skiptið hafi bankinn farið fram úr sér og í kjölfarið aukið að óþörfu hættuna á samdrætti í efnahagslífinu."