Englandsbanki hyggur á að veita breskum bönkum nýja lánalínu með það að augnamiði að liðka fyrir á lánamörkuðum, að því er BBC greinir frá.

Nákvæm útfærsla á umfangi og tímasetningu liggur ekki fyrir. Þó þykir ljóst að aðgerðirnar verða með svipuðu sniði og hjá bandaríska seðlabankanum. Bönkum yrði þá gert kleift að nýta fasteignatryggð skuldabréf sem veð fyrir ríkisskuldabréfum.

Vonast er til að þetta liðki fyrir að millibankamarkaði sem mun hafa jákvæðar afleiðingar fyrir einstaklinga. Stjórnarandstæðingar í Bretlandi hafa lýst yfir áhyggjum vegna hugsanlegs kostnaðar sem kynni að falla á skattgreiðendur.