Peningastefnunefnd Englandsbanka tilkynnti fyrir skömmu að hagvaxtarspá bankans fyrir árið 2017 hafi verið lækkuð um 0,2 prósentustig úr 1,9% niður í 1,7%. Þá var spá nefndarinnar fyrir árið 2018 einnig lækkuð úr 1,8% niður í 1,7%.

Ástæðan er meðal annars sú að kaupmáttur launa hefur verið að dragast saman í landinu þar sem launavöxtur hefur verið lægri en verðbólga. Bankinn spáir því að vöxtur launa verði um 2% á þessu ári en á sama tíma verði verðbólga 2,6%.

Þá greindi peningastefnunefndin einnig frá því að stýrivextir yrðu áfram 0,25%. Nefndin var þó ekki sammála þar sem tveir af átta nefndarmönnum vildu hækka vexti. Vextir Englandsbanka hafa hins vegar ekki verið hækkaðir frá árinu 2007.