Englandsbanki – seðlabanki Bretlands – hefur lækkað stýrivexti úr 0,75% í 0,25% vegna kórónuveirufaraldursins. 382 smit hafa nú verið staðfest í Bretlandi, og 6 látist. BBC segir frá .

Búist er við að fjármálaráðherra Bretlands, Rishi Sunak, kynni á næstunni frekari aðgerðir til að styðja við hagkerfið, en Englandsbanki hefur auk þess sagst munu tryggja að bankakerfið geti séð atvinnulífinu fyrir lausafé.

Peningastefnunefnd bankans var einróma í stýrivaxtaákvörðun sinni, en bankinn gerir ráð fyrir að efnahagsumsvif „dali áþreifanlega“ á næstu mánuðum. Þótt áhrifin verði tímabundin muni þau líkast til valda því að mörg fyrirtæki, sér í lagi lítil, geti ekki staðið í skilum með reikninga sína, og muni því þurfa fyrirgreiðslu, eigi þau að komast af.