Englandsbanki lækkaði vexti sína um 1,5 prósentustig í morgun sem er mun meiri lækkun en greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir. Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis.

„Flestir höfðu gert ráð fyrir að vextir yrðu lækkaðir um 0,50 prósentustig en þeim hafði þó fjölgað á síðustu dögum sem áttu von á meiri lækkun. Vextir Englandsbanka eru nú 3%.

Englandsbanki er með vaxtalækkuninni að bregðast við versnandi hagvaxtarhorfum í kjölfar lausafjárkreppunnar og fetar þar með í fótspor seðlabanka víða um heim sem keppast við að lækka stýrivexti til að koma í veg fyrir frekari samdrátt. Búist er við að Seðlabanki Evrópu lækki vexti síðar í dag um á bilinu 50 -100 punkta,“ segir í Morgunkorni.