Englandsbanki segir í dag að raunverulegt tap af illseljanlegum eignum á borð fasteignatryggða fjármálagjörnina sé líklegast ekki jafnmikið og núverandi markaðsvirði gefur til kynna. Þetta kemur fram í Wall Street Journal.

Í riti sínu um fjármálastöðugleika sem bankinn gefur út og kemur út síðar í dag, segir að núverandi markaðsvirði sé lægra en ella sökum óvissu og óseljanleika. Þetta geri það að verkum að erfiðara sé að mæla hugsanlegar afskriftir, og því sé markaðsvirði lægra og orsaki þá trú fjárfesta að ekki sé öll kurl komin til grafar hjá ýmsum fjármálastofnunum. Allt auki þetta síðan vantraust á millibankamarkaði.

Þetta vantraust gæti þó orsakað sjálfrætandi spádóm, segir Englandsbanki.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sagði í síðasta mánuði að afskriftir fjármálafyrirtækja hefðu náð 945 milljörðum dollara í mars. Englandsbanki varar þó við því að færa afskriftir til bókar á markaðsvirði hverju sinni, þar sem slíkt gæti stórlega ýkt það tap sem fjármálafyrirtæki kynnu að verða fyrir.