Englandsbanki er nú undir rannsókn efnahagsbrotadeildar Bretlands (e. Serious Fraud Office) vegna hugsanlegra brota við kaup á skuldabréfum frá bönkum í fjármálakrísunni árið 2008. Business Insider greinir frá þessu.

Forsaga málsins er sú að þegar fjármálakrísan reið yfir Bretland milli 2007 og 2008 urðu bankar þar í landi fyrir lausafjárskorti. Til þess að halda fjármálakerfinu gangandi og koma í veg fyrir gjaldþrot bankanna útvegaði Englandsbanki þeim fjármagn í gegnum skuldabréfakaup.

Ekki hefur komið fyllilega fram í hverju hin meintu brot felast, en svo virðist sem grunsemdir séu um að reglum hafi ekki að fullu verið fylgt við lánveitingarnar.