Englandsbanki er að leggja lokahönd á áætlun sem miðar að því að bjarga breskum bönkum sem eiga í lausafjárvandræðum frá hruni, samkvæmt heimildum bandaríska viðskiptablaðsins Wall Street Journal.

Í frétt blaðsins segir að um verði að ræða róttækustu aðgerðir Englandsbanka frá því að lánsfjárkreppan á fjármálamörkuðum hófst síðasta sumar.

Aðgerðir Englandsbanka, sem gætu verið kynntar í næstu viku, myndu hjálpa bönkum að losna við af bókum sínum fasteignatryggða skuldabréfavafninga að andvirði milljarða punda. Slíkar eignir hafa reynst illseljanlegar í núverandi árferði á mörkuðum og gert það að verkum að bankastofnanir geta ekki veitt ný útlán.

Heimildarmaður Wall Street Journal segir Englandsbanki íhuga að veita bönkum lán fyrir allt að 30 milljarða punda til kaupa á ríkistryggðum skuldabréfum í skiptum fyrir veð í fasteignatryggðum skuldabréfavafningum. Kaup á slíkum ríkisskuldabréfum myndi auðvelda bankastofnunum að sækja sér fjármagn.

Björgunaráætlun Englandsbanka myndi ganga skrefi lengra heldur en þær aðgerðir peningamálayfirvöld í Bandaríkjunum og Evrópu hafa gripið til: Bönkum yrði heimilt að fá lánað í eitt ár – og jafnvel lengur.

Áætlun Englandsbanka mun þurfa að hljóta samþykki Alistair Darlings fjármálaráðherra.