Nú hefur komið í ljós að Englandsbanki veitti bresku bönkunum Royal Bank of Scotland og HBOS tæplega 62 milljarða punda neyðarlán í október og nóvember í fyrra – það fyrsta um sama leyti og bankakerfið var að hrynja hér á landi.

Þetta kom fram í máli Mervyns King, bankastjóra Englandsbanka, þegar hann mætti fyrir fjármálanefnd breska þingsins fyrr í vikunni en breskir fjölmiðlar hafa jafnframt eftir King að þetta gefi lýsandi mynd af því hversu nálægt breska bankakerfið var hruni á þessum tíma.

Vart þarf að rifja upp að hálfum mánuði áður hafði bandaríski bankinn Lehman Brothers hrunið sem leiddi til þess að alþjóðlegir lánamarkaðir frusu.

Breska ríkisstjórnin veitti bönkunum síðar neyðaraðstoð en að sögn Kings var lán Englandsbanka veitt í þeim tilgangi að halda lífi í bönkunum þangað til. Bankarnir lögðu fram tryggingar sem verðmetnar voru á 100 milljarða punda og sagði King við þingnefndina að ekki hefði komið til greina að biðja um minni tryggingu enda yrðu það breskir skattgreiðendur sem bæru tjónið ef illa færi.

Nánar er fjallað um málið í erlendri fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu.