Eins og Viðskiptablaðið greindi frá kaus peningastefnunefnd Englandsbanka að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum í gær. Stýrivextirnir standa nú í 0,5% og hafa verið óbreyttir í heila 78 mánuði.

Aðstoðarbankastjóri Englandsbanka, Ben Broadbent, hefur nú sagt að það væri heimskulegt að tilkynna fyrirfram um það hvenær búast megi við vaxtahækkunum af hálfu bankans. Í viðtali við BBC sagði hann að bankinn væri að bregðast við tíðindum sem væru í eðli sínu ófyrirsjáanleg. „Og það þýðir að það væri ekki bara ómögulegt, heldur væri það heimskulegt að tilkynna fyrirfram einhvern ákveðinn dag sem vextirnir myndu hækka,“ sagði Broadbent.

Seðlabanki Íslands gefur fyrirheit

Að einhverju leyti eru skiptar skoðanir á því meðal hagfræðinga hvort og hvernig æskilegt sé að gefa fyrirheit um stýrivaxtahækkanir. Viðhorf Englandsbanka má til dæmis bera saman við skoðanir Seðlabanka Íslands á því hvort rétt sé að gefa skilaboð um vaxtahækkanir.

Forsvarsmenn Seðlabanka Íslands hafa að undanförnu verið nokkuð gjarnir á að gefa til kynna að vaxtahækkunarferli sé líklega yfirvofandi. Í síðustu skýrslu peningastefnunefndar til Alþingis, sem kom út í síðasta mánuði, sagði einnig að búast mætti við „að hækka þurfi vexti frekar á komandi misserum eigi að tryggja stöðugt verðlag til lengri tíma litið,“ eins og Viðskiptablaðið greindi frá .