Landsframleiðsla dróst saman um 0,3% í Bretlandi á fyrsta ársfjórðungi. Þetta er meiri samdráttur en gert hafði verið ráð fyrir en bráðabirgðatölur bresku hagstofunnar sem birtar voru í síðasta mánuði bentu til 0,2% samdráttar. Fráviikið skýrist af meiri samdrætti í breskum byggingageira en búist var við.

Hagkerfið breska dróst sömuleiðis saman um 0,3% á fjórða ársfjórðungi í fyrra og merkir það að nú sé skollin á kreppa í landinu á nýjan leik.

Breska útvarpið, BBC, segir menn hafa áhyggjur af því að samdrátturinn geti haldið áfram á yfirstandandi ársfjórðungi þrátt fyrir að Englandsbanki, seðlabanki Bretlands, hafi mokað 325 milljörðum punda inn í hagkerfið í því skyni að blása lífi í efnahagslífið. Þá hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn þrýst á Englandsbanka að hann grípi til fleiri vopna í baráttunni við kreppuna, svo sem með lækkun stýrivaxta.

BBC segir Mervyn King, bankastjóra Englandsbanka, hafa áhyggjur af efnahagshorfum. Hann óttast m.a. að krýningarafmæli Elísabetar Englandsdrottningar geti dregið úr framleiðni og þar með landsframleiðslu. Það geti svo skilað sér í meiri samdrætti en áður.

Bretar halda upp á krýningarafmælið allt þetta ár. Aðalhátíðin stendur svo yfir í fjóra daga í júní.