Spennusagan Englasmiðurinn eftir sænska spennusagnahöfundinn Camillu Läckberg var í efsta sæti á metsölulista Rannsóknarseturs verslunarinnar (RSV) fyrir dagana 25. mars til 7. apríl sl. Bókin er nú næst mest selda bókin það sem af er þessu ári.

Í öðru sæti var önnur spennusaga, Snjókarlinn eftir norska spennusagnahöfundinn Jo Nesb ø.

Þá var vísindaskáldsagan Hungurleikarnir eftir Suzanne Collins í þriðja sæti og Konan sem hann elskaði áður eftir Dorothy Koomson í fjórða sæti. Í fimmta sæti listans var sjálfshjálparbókin Laðaðu til þín það góða eftir Sigríði Arnardóttur.

Athygli vekur að allt eru þetta nýjar bækur á listanum. Að vísu er liðinn tæpur  mánuður frá því að RSV birti síðast lista yfir metsölubækur.

Heilsuréttir Hagkaups eftir Sólveigu Eiríksdóttur er þó mest selda bókin það sem af er ári og hefur verið það frá því snemma á árinu. Englasmiðurinn er nú orðinn næst mest selda bókin en í þriðja sæti yfir mest seldu bækur á árinu er kunnuleg bók, Gamlinginn sem skreið út um gluggann og hvarf eftir sænska rithöfundinn Jonas Jonasson. Hún hefur verið í þremur efstu sætunum frá áramótum en Gamlinginn var mest selda bókin lengi vel á síðasta ári eða þangað til að Einvígið eftir Arnald Indriðason og Brakið eftir Yrsu Sigurðardóttur komu út í byrjun nóvember.

Hungurleikarnir eru síðan fjórða mest selda bókin það sem af er ári en spennusagan Svartur á leik eftir Stefán Mána er í fimmta sæti. Svartur á leik kom upphaflega út árið 2004 en var nú nýlega endurprentuð í kilju í kjölfar þess að kvikmynd eftir bókinni var frumsýnd hér á landi í byrjun mars.

Sjá lista RSV í heild sinni.