Englandsbanki, seðlabanki Bretlands, hefur haldið stýrivöxtum óbreyttum í 0,5%. Vaxtastig í landinu hefur haldist óbreytt í þrjú ár. Bankinn ætlar hins vegar ekki að beita sér fyrir því að örva hagkerfið í meiri mæli en áður, svo sem með því að auka innspýtingu fjármagns inn í fjármálageirann og ýta undir lántökur.

Ekki virðist blása beint byrlega fyrir Bretum en Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) gerir ráð fyrir því í endurskoðaðri hagspá sinni að hagkerfi landsins muni dragast saman um 0,7% í stað þess að vaxa um 0,5% eins og fyrri spá hljóðaði upp á.