Talið er að efnahagslíf á Englandi hafi orðið af um tveim milljörðum sterlingspunda vegna þess að landslið Englands er ekki með á EM.

Fjölmörg fyrirtæki framleiða vörur merktar enska landsliðinu og bitnar þetta mjög illa á þeim. Einnig verða sjónvarpsstöðvar af auglýsingatekjum vegna þessa.

Þetta bitnar þó ekki síst á eigendum kráa og skemmtistaða þar sem minna er um að menn hittist og horfi á keppnina þegar England er ekki að spila. Ljóst er að bjórdrykkja Englendinga verður ekki eins mikil í júní eins og framleiðendur vonuðust eftir.

Guardian segir frá þessu í dag.

Þetta hefur líka áhrif á þjóðarsál Englendinga en það er margséð að þjóðfélagið tekur kipp upp á við þegar landsliðinu gengur vel. Sérfræðingar segja þetta hafa áhrif á allt frá hagkerfinu til heilbrigðis þjóðarinnar. Jafnvel vinsældir Gordon Brown gætu skaðast.

Evrópumeistarakeppnin fer nú fram í Sviss og Austurríki.