Varaforsætisráðherra Nýja Sjálands, Bill English verður væntanlega næsti forsætisráðherra landsins í kjölfar þess að tveir keppinautar hans um leiðtogaembætti flokks hans drógu framboð sín til baka.

Á mánudag tilkynnti núveandi forsætisráðherra landsins, John Key að hann myndi segja af sér embætti til að eyða meiri tíma með fjölskyldu sinni.

Þessi fyrrum bankamaður hjá Merril Lynch, sem verið hefur forsætisráðherra í landinu í átta ár sagði jafnframt að endurnýjun nú gæti verið góð fyrir ríkisstjórnina og gæti gefið henni tíma til að ná vopnum sínum undir stjórn nýs leiðtoga fyrir kosningar sem stefnt er að á næsta ári.

Lýsti John Key yfir stuðningi við Bill English sem einnig er fjármálaráðherra landsins. Í kjölfarið drógu heilbrigðisráðherra landsins Jonathan Coleman og ráðherra lögreglumála Judith Collins til baka framboð sín.

Flokkur þeirra, Þjóðarflokkurinn sem er mið hægriflokkur kemur saman á mánudag til að kjósa nýjan leiðtoga.