Tveimur stærstu efnahagskerfum evrusvæðisins gekk talsvert verr á öðrum ársfjórðungi en vonir stóðu til, að því er fram kemur á vef BBC.

Verg landsframleiðsla í Þýskalandi dróst saman um 0,2 prósentustig á tímabilinu apríl til júní, en hafði aukist um 0,7% á fyrsta ársfjórðungi.

Þá sýna opinberar tölur frá Frakklandi að enginn hagvöxtur hafi verið í landinu á öðrum ársfjórðungi. Frakkar hafa nú þurft að horfa upp á tvo ársfjórðunga í röð án hagvaxtar.

Christian Schulz, hagfræðingur Berenberg bankans, segir að samdrátt í þýska efnhagskerfinu sé meðal annars hægt að skrifa á veðrið. Milt veður í byrjun þessa árs hafi gert að verkum að hagkerfið hafi ekki tekið við sér í vor. Þá segir hann að átökin í Úkraínu geti einnig haft sitt að segja.