Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra sagði á Alþingi í dag að sá möguleiki væri enn uppi á borðum að kröfuhafar gömlu bankanna eignuðust hlut - jafnvel hundrað prósent - í nýju bönkunum. Það yrði þó ekki frágengið fyrir 17. júlí en þá er stefnt að því að uppgjöri milli gömlu og nýju bankanna verði lokið.

Gylfi var þarna að svara fyrirspurn frá Lilju Mósesdóttur, þingmanni Vinstri grænna.

Gylfi sagði að nýju bankarnir myndu taka til sín nýjar eignir; góðar og slæmar en eftir væru skildar í gömlu bönkunum fyrst og fremst erlendar eignir.

„Það er jafnframt rétt að rætt hefur verið um að 280 milljarðar verði eiginfjárframlag nýju bankanna frá hinu opinbera. Sú stærð á ekki að ganga beint á móti afskriftum vegna lána sem verða ekki greidd að fullu. Þær afskriftir eiga að eiga sér stað þegar eignirnar eru færðar frá gömlu bönkunum til hinna nýju," sagði ráðherrann í svari sínu við fyrirspurn þingmannsins.