Hlíðarfótur, sem er ný vegtenging af Hringbraut inn á flugvallasvæðið við rætur Öskjuhlíðar, er enn á ný kominn á framkvæmdaáætlun Reykjavíkurborgar. Óskar Bergsson, formaður borgarráðs og framkvæmda og eignaráðs borgarinnar kynnti þessi áform m.a. á Útboðsþingi 13. febrúar og á að ljúka verkinu fyrir haustið.

Greint er frá þessu málin í Viðskiptablaðinu í dag. Áætlað er að verkefnið í heild kosti 450 milljónir króna, en einnig er gert ráð fyrir breikkun Flugvallavegar fyrir 45 milljónir króna. Er þetta hluti af áætlun Reykjavíkurborgar um að verja nærri 3 milljörðum í gatnaframkvæmdir á árinu.

Hlíðarfótur er m.a. forsenda þess að hægt sé að anna umferð til og frá samgöngumiðstöð sem áætlað er að reisa við hlið Hótels Loftleiða. Eins að tryggja óheft umferðarflæði til og frá nýbyggingu Háskólans í Reykjavík við rætur Öskjuhlíðar við Nauthólsvík.

„Þetta er hluti af samkomulagi milli Reykjavíkurborgar og Háskólans í Reykjavík um að klára þessar gatnaframkvæmdir til að skólahald geti hafist í skólanum í haust,” sagði Óskar m.a. á Útboðsþinginu.

Gerð Hlíðarfótar var líka kynnt á útboðsþingi 2008 og þá var áætlað að ljúka gerð vegarins fyrir haustið. Vandræðagangur við ákvarðanatöku, óvissa um framkvæmdir á flugvallarsvæðinu og tíð meirihlutaskipti í borginni gerðu þau áform hins vegar að engu.

Þessi vegaspotti hefur reyndar verið tilefni mikillar umræðu í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga frá því á síðustu öld. Stundum hefur gerð vegarins verið tengd jarðgöngum í gegnum Öskjuhlíð, stundum framtíð Reykjavíkurflugvallar og jafnvel stórtækum hugmyndum um járnbrautarsamgöngur frá Reykjavík til Keflavíkurflugvallar.