Því var spáð hér í liðinni viku, að loks þegar fyrsta forystugrein Davíðs Stefánssonar, nýráðins ritstjóra Fréttablaðsins, liti dagsins ljós, þá myndi efni hennar standa hjarta Helga Magnússonar nærri. Hann keypti sem kunnugt er helminginn í útgáfu blaðsins fyrir skömmu og Davíð er hans maður á ritstjórn. Ekki þurfti þó að bíða lengur eftir leiðaranum, því svo skemmtilega vildi til að hann birtist samdægurs, í fimmtudagsblaði Fréttablaðsins, undir fyrirsögninni „Jólaboðið 1977“. Ekki síður var það þó skemmtilegt að spádómurinn rættist og það tvöfalt, því efni þessarar síðbúnu jólahugvekju var annars vegar Marel og hins vegar hversu ákjósanleg evran væri sem gjaldmiðill. Hvort tveggja stendur hjarta Helga nærri, þar sem það slær bak við veskisvasann.

* * *

Fjölmiðlanefnd komst á dögunum að þeirri niðurstöðu að Sýn hf. hefði brotið gegn lögum um fjölmiðla með birtingu viðkvæmra persónugreinanlegra upplýsinga um einstakling í frétt á Vísi. Málið var tekið til efnislegrar meðferðar á grundvelli kvörtunar frá einstaklingi, sem taldi efni fréttar Vísis brjóta gegn rétti sínum til friðhelgi einkalífs.

Atarna er furðulegt mál. Fréttin snerist um umræður í hóp á Facebook, þar sem maðurinn var nafngreindur og sagður flagari mikill, en þar var hann nafngreindur, mynd birt af honum og margvísleg nánari deili sögð á honum. Frétt Vísis nafngreindi manninn ekki, enda snerist hún ekki um málefni hans heldur fremur hina heiftarlegu orðræðu á Facebook. Þó var hermt að hann væri rauðhærður verkfræðingur og músíkalskur í ofanálag! –  Fjölmiðlarýnir verður að játa að hann er engu nær, en þetta dugði fjölmiðlanefnd.

Um þetta skrifaði fjölmiðlanefnd ógnarlangt álit (það tæki um sex síður í Viðskiptablaðinu), sem í sjálfu sér er vísbending um að málið hafi vafist fyrir nefndinni. Væri það slétt og fellt hefði nefndinni vitaskuld dugað 2-3 málsgreinar, en það var nú öðru nær. En eftir allan vaðalinn er svo sagt að vísu séu engin viðurlög við þessu meinta broti og þar við situr. Fjölmiðlanefnd er þarna sem endranær á fullkomnum villigötum. Þarna er umfjöllun um umfjöllun og vísað til orða annarra, orð sem ekki fela í sér neinn áfellisdóm yfir manninum og einstaklega ólíklegt að aðrir en þeir sem hafa svæpað hann á Tinder geti þekkt hann af. Í fréttinni er vísað sérstaklega til greinar Maríu Rúnar Bjarnadóttur, doktorsnema við Sussexháskóla, sem hún birti í Úlfljóti, tímariti laganema, þar sem hún kvað eindregið upp úr um það að ummæli á félagsmiðlum teldust opinber birting. Samt er Sýn fordæmd fyrir að geta áður birtra ummæla. Og í því samhengi er rétt að líta til dómafordæma um að blaðamenn verði ekki gerðir ábyrgir fyrir annarra orðum, sem þeir hafa eftir. Skrýtnast í þessu er svo auðvitað það, að meðal nefndarmanna, sem undirritar þetta furðuálit, er fyrrnefnd María Rún Bjarnadóttir, sem þannig hefur fræðimennsku sína að engu!

* * *

Það er því miður ekki svo að þetta sé einsdæmi hjá fjölmiðlanefnd, því eins og upplýst var á þessum stað fyrir nákvæmlega ári, þá gerðist nánast hið sama í máli þegar Hringbraut var sektuð fyrir umfjöllun um málefni Sigurplasts. Þann úrskurð Fjölmiðlanefndar, undirritaði meðal annarra Kolbrún Sævarsdóttir, héraðsdómari í Reykjavík, sem þar sat í nefndinni skv. tilnefningu Hæstaréttar Íslands. Það var athugavert fyrir þær sakir að það var sú sama Kolbrún Sævarsdóttir, sem kvað upp dóminn í máli Sigurplasts, þessa sama máls og verið er að gera stórfelldar athugasemdir við. Og dómarar eiga ekki frekar en aðrir að gerast dómarar í eigin sök. Skömminni deila Kolbrún og fjölmiðlanefnd, en Hringbraut mátti nú samt borga og brosa.

* * *

Svo er nú hitt, sem gera má athugasemd við. Þetta álit undirrituðu þrír nefndarmenn í Fjölmiðlanefnd. Og einn vanhæfur, eins og rakið er að ofan. En í fjölmiðlanefnd eiga lögum samkvæmt að sitja fimm manns. Þar eru nú hins vegar aðeins fjórir nefndarmenn, vegna þess að Blaðamannafélagið, sem lögin segja að tilnefni einn nefndarmanna, ákvað í mars síðastliðnum, að draga fulltrúa sína út úr starfi nefndarinnar.

Stjórn Blaðamannafélagsins sagði ástæðuna vera „eðlisbreyting“ á starfi nefndarinnar, þar sem nefndin hefði úrskurðað og gefið álit sitt á grundvelli 26. gr. fjölmiðlalaga um lýðræðislegar skyldur fjölmiðla, en þar hefði hún seilst allt of langt með umfjöllun um vinnubrögð og fréttamat blaðamanna í einstökum málum.

Svo þarna eru í raun aðeins tveir nefndarmenn, minnihluti nefndar, að kveða upp dóm. Hvað er að marka það álit, svona aðeins á hinum formlegu forsendum?

Fjölmiðlarýnir hefur oft áður lýst furðu sinni á störfum fjölmiðlanefndar, sem starfar á grundvelli vanhugsaðra laga, og virðist ekki hafa verið heppin í mannauðsmálum. En hver er tilgangurinn með starfi nefndarinnar, sem virðist helst vera sá að útvíkka starfshlutverk sitt umfram það sem lög, tjáningarfrelsi og góð lýðræðisvenja leyfir? Af álitum hennar virðist ljóst að þar á bænum dreymir fólk um að komast í dómarastól og virðist halda að það felist í að skrifa svo langan og tyrfinn texta að enginn nenni að lesa til þess að hrekja ruglið.

Menntamálaráðherra góður, lokaðu nú þessu batteríi! Það er hvorki þér, lýðræðinu né fjölmiðlum samboðið.

* * *

Þá að alvöru dómstólum: Á þriðjudag var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur yfir Oddnýju Arnardóttur og Hildi Lilliendahl Viggósdóttur vegna ummæla sem þær létu falla á félagsmiðlum vegna Hlíðamálsins svokallaða. Ummæli Oddnýjar og Hildar falla ekki beint undir efni þessa dálks, en það kann dómurinn að gera. Í honum segir héraðsdómarinn Arnar Þór Jónsson það mikilvægt í lýðræðisríki að fjölmiðlar og almenningur veiti hinu opinbera aðhald, en bætir svo við:

„Það gera menn með málefnalegri gagnrýni, sem grundvölluð er á staðreyndum og haldföstum rökum sem reist eru á traustum grunni. Í því ljósi blasir við að ómálefnaleg rök, dylgjur, sögusagnir, múgæsing og lýðskrum á ekki erindi inn í slíka umræðu og er ekki verndað af tjáningarfrelsisákvæðum stjórnarskrár og mannréttindasáttmála.“

Nú er það skynsamlegt hjá dómaranum, að þannig ætti opinber umræða helst að vera, og þær forsendur, sem hann tínir til um afstæðishyggju og hættuna, sem hinu opna þjóðfélagi stafar af henni, eru góðar og gildar. Raunar gleðiefni að dómari fjalli um slík grundvallaratriði, þeir veigra sér of margir við því.

Það er hins vegar mikið vafamál og má varla standa óhaggað, að ómálefnaleg rök, svæsnar og hæpnar skoðanir njóti ekki verndar tjáningarfrelsisákvæða. Þau ákvæði eru einmitt sett óvinsælum, vondum og röngum skoðunum til verndar. Þessar vinsælu, góðu og réttu þurfa engrar verndar við. Um leið og menn fara að gefa afslátt af því, þá er hættan sú að skilgreiningar á skoðunum fari á skrið.

Fjölmiðlarýnir efast ekki um að dómurinn er réttur og sakirnar nægar, bæði varðandi það sem sagt var, en ekki síður í ljósi markmiða og afleiðinga orðanna. Með rökstuðningnum kunna hins vegar að hafa opnast þar glufur að óþörfu, sem geta hæglega skaðað tjáningarfrelsið þegar fram í sækir.

Það er alþekkt í opinberri umræðu, að menn reyna að höfða til almennings með ýmsum hætti. Oft þykja þeim orð andstæðinganna lýðskrum, ómálefnaleg rök og dæmin sögusagnir, þó það myndi auðvitað aldrei henda þá sjálfa, enda eigin málstaður alltaf miklu betri. En menn verða bara að þola það og svara, kveða þvaðrið niður. Það á jafnt við Jón og Gunnu, blaðamenn eða stjórnmálamenn. Það væri afleitt ef menn gætu farið að hefna þess í héraðsdómi sem hallaðist á Alþingi.

Jafnvel minnstu hömlur á tjáningarfrelsi má ekki leggja á nema af einstakri varúð og þær verða bæði að vera nauðsynlegar og í góðu meðalhófi.