Sighvatur Björgvinsson, fyrrverandi ráðherra, skrifar í Fréttablaðið í dag og greinir meðal annars frá jákvæðum viðbrögðum við fyrri skrifum. Segist hann hafa fengið fjölda skeyta og símtala með þökkum fyrir skrifin og hefur eftir nokkrum aðilum að sjálfir hafi þeir hugsað það sama en ekki þorað að ræða málin opinberlega af ótta við bloggheimana. „Á ég að trúa því að íslenskt samfélag standi ekki betur vörð um tjáningarfrelsið en svo, að fólk þori ekki að tjá sig vegna orðsóða í bloggheimum?,“ segir Sighvatur um þessi mál.

Hann snýr sér að auki aftur að efnahagshruninu og „sjálfhverfu kynslóðinni“ og segir: „Og er það ekki líka umhugsunarvert, að þegar allt hrundi á Íslandi þá var leitað til „gamla gengisins“ - til þeirra Jóhönnu og Steingríms!!! Allur heimurinn er nú þeirrar skoðunar, að undir forystu þeirra hafi tekist að reisa Ísland úr öskunni. Allur heimurinn - nema Íslendingar? Af hverju ekki Íslendingar? Af þvi svo mörgum Íslendingum þykir, að þau Jóhanna og Steingrímur hafi alls ekki gert nógu mikið - „fyrir mig“.“

Þetta er þriðja grein Sighvats á stuttum tíma um þjóðina og efnahagsmál og er óhætt að segja að ekki hafi staðið á viðbrögðum við skrifunum, hvort heldur hjá þeim sem eru honum sammála og þeim sem eru honum ósammála. Sighvatur sat lengi á þingi furir Alþýðuflokkinn og skipaði í þingtíð sinni meðal annars sæti fjármálaráðherra og heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.