Ákveðið var að fresta frekar máli Lárusar Welding, fyrrverandi forstjóra Glitnis, gegn slitastjórn bankans vegna gagnaöflunar í því. Mál Lárusar snýr að því að hann lagði sjálfur út fyrir málskostnaði sínum þegar slitastjórnin dró hann og fyrri eigendur bankans fyrir dómstól í New York í Bandaríkjunum árið 2011. Málatilbúnaður slitastjórnarinnar snerist um að krefja svokallaða klíku Jóns Ásgeirs Jóhannessonar um 2 milljarði dali, um 230 milljarða króna, fyrir að hafa rænt Glitni innanfrá. Til viðbótar við Lárus og Jón Ásgeir var þeim Ingibjörgu Pálmadóttur, Pálma Haraldssyni, Hannesi Smárasyni, Þorsteini M. Jónssyni, Jóni Sigurðssyni og PWC stefnt vegna meintrar aðildar að málinu.

Í kjölfar þess að dómari í New York lét mál slitastjórnar gegn stjórnendum og eigendum Glitnis niður falla kröfðust þeir miskabóta sem slitastjórnin hafði stefnt vegna kostnaðar þeirra af málssókninni. Mál Lárusar var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Lárus hefur sagt kostnað sinn vegna málsins vestanhafs töluverðan og vill hann fá það bætt. Hann stefndi slitastjórninni vegna málsins í fyrra .