Enn er ágreiningur um kröfur upp á tíu milljarða króna sem lýst var í þrotabú VBS fjárfestingarbanka, sem nú heitir VBS eignasafn. Kom þetta m.a. fram á kröfuhafafundi, sem haldinn var í gær.

Skiptastjóri, Hróbjartur Jónatansson, segir í samtali við vb.is að lýstar kröfur í búið hafi numið alls 61 milljarði króna og að búið sé að samþykkja 39,5 milljarða. „Eftir standa þá um tíu milljarðar sem enn er ágreiningur um.“ Hann gerir ráð fyrir því að hægt sé að ganga frá þessum ágreiningsmálum á þessu ári og gangi það eftir ætti að vera hægt að fara í nauðasamningaferli í ár, ef áhugi er fyrir því meðal kröfuhafa.

„Eignir búsins eru nú um 6,8 milljarðar króna, en þær gætu orðið meiri. Það ræðst einkum af nokkrum dómsmálum sem eiga eftir að ganga sinn gang.“ Hann segir að tekist hafi að endurheimta um 4,4 milljarða króna. „Lánasafnið var hins vegar mjög súrt og hefur ekkert batnað.“

Deila við Lehman Brothers

Enn er í gangi riftunarmál gegn Tryggingamiðstöðinni og þá eru tvö innheimtumál líka sem þarf að ganga frá. „Annað snýr að stórri lóð í Reykjavík og hitt er um 600 milljóna króna mál gegn Kevin Stanford,“ segir Hróbjartur. Annað atriði sem gæti haft áhrif á heimtur eru deilur við þrotabú bandaríska bankann Lehman Brothers.

„Lehman geymdi erlend verðbréf fyrir VBS og fyrir viðskiptavini VBS. Þessi bréf frusu inni við fall Lehman. Við erum búin að borga Tryggingasjóði innstæðueigenda vegna bréfa viðskiptavinanna, en eigum eftir að fá bréfin aftur frá Lehman. Það getur verið erfitt að fást við svona stóran aðila, en við gerum ráð fyrir því að fá eitthvað frá þrotabúinu.“