Niðurstöður hafa komið úr liðlega helmingi þeirra 180 sýna sem tekin voru í gær og á morgun á Landspítalanum eftir að Covid 19 smit kom upp á hjartadeild spítalans en allar sýna þær neikvæða svörun við smiti.

Smitið kom í ljós við hefðbundna skimun sjúklings vegna Covid-19 á hjartadeild 14EG Landspítala í gærkvöldi, en ekki liggur fyrir hvernig umræddur sjúklingur smitaðist. Þó er ljóst að viðkomandi smitaðist inniliggjandi á hjartadeild. Sá sem um ræðir er nú á heimili sínu.

Í gærkvöldi kom í ljós að enginn hinna 32 inniliggjandi sjúklinga á hjartadeildinni voru smitaðir, en af þeim liðlega 100 sýnum af starfsfólki sem einnig hafa verið tekin reyndist enginn þeirra heldur vera smitaðir. Sjá mátti langar bílaraðir við Borgarspítalann í gærkvöldi þegar verið var að greina starfsfólkið, en sýnatakan fer fram úr bílum sem koma upp að skúr fyrir ofan spítalann.

Lokað hefur verið fyrir innlagnir á hjartadeild, en bráðum innlögnum hjartasjúklinga verður sinnt á öðrum legudeildum. Öllum valkvæðum aðgerðum og göngudeildarheimsóknum á hjartadeild sem áttu að fara fram í dag, hefur verið frestað. Frekari upplýsinga um starfsemi hjartadeildar næstu daga á eftir er að vænta.

Í tilkynningu segir að farsóttarnefnd Landspítala hafi þegar í stað komið saman ásamt stjórnendum hjartadeildar og ákveðið var að grípa til eftirfarandi ráðstafana: Skima alla sjúklinga (32 talsins), skima allt starfsfólk deildarinnar (á annað hundrað manns) og hafa samband við aðstandendur.

Sóttvarnalæknir hefur verið upplýstur um málið og áfram er unnið að smitrakningu innanhúss og meðal þeirra sem deildinni tengjast eftir atvikum.