Verðbólga í Kína mældist sú hæsta á árinu í júlí en er þó enn langt undir markmiði stjórnvalda, sem er 3 prósent.

Verðbólga hækkaði upp í 1,6 prósent á ársgrundvelli úr 1,4 prósentum í mánuðinum áður vegna hærra matarverðs. Hins vegar féll verð til heildsala og framleiðenda fertugasta mánuðinn í röð.

Seðlabankinn í Kína hefur lækkað vexti fjórum sinnum síðan í nóvember síðastliðnum til að koma hagkerfinu á skrið. Zhou Hao, hagfræðingur hjá Commerzbank í Singapúr, telur að bankinn gæti þurft að ráðaast í aðra vaxtalækkun. Sagði hann að verðhjöðnun til framleiðenda verði að linna.

Fyrr í mánuðinum voru birtar tölur sem benda til þess að hagvöxtur í Kína á ársgrundvelli á tímabilinu apríl í júní hafi verið sjö prósent. Þrátt fyrir að það sé meiri hagvöxtur en víðast annars staðar hefur vöxturinn í Kína ekki verið minni frá því eftir hrun.

Áhyggjurnar af frammistöðu kínversks efnahags hafa endurspeglast í þarlendum hlutabréfamarkaði, sem hefur lækkað í verði um þriðjung á tæpum tveimur mánuðum.