Öll 20 félögin í kauphöll Nasdaq á Íslandi lækkuðu í virði í viðskiptum dagsins, en félagið sem lækkaði minnst, Sýn, lækkaði um 1,20%, niður í 33 krónur, en það var jafnframt í minnstu viðskiptunum eða fyrir 8 milljónir króna.

Mest lækkun var hins vegar á gengi bréfa Kviku og svo Icelandair, það fyrrnefnda lækkaði um 5,38%, en það síðarnefnda um 5,36%. Fór Kvika niður í 8,79 krónur í 183 milljóna króna viðskiptum, meðan Icelandair fór niður í 5,65 krónur í 201 milljóna króna viðskiptum.

Lokagengi bréfa félagsins hefur ekki verið lægra síðan það fór lægst 21. október síðastliðinn þegar það fór í 5,5 krónur, eða fyrir ríflega fjórum mánuðum síðan.

Þriðja mesta lækkunin var svo á gengi bréfa Marel, eða um 3,66%, niður í 526 krónur, í þó næst mestu viðskiptunum eða fyrir 477 milljónir króna.

Mestu viðskiptin voru hins vegar með bréf Arion banka, eða fyrir 468 milljónir króna, en bréf bankans lækkuðu um 1,53%, sem er þriðja minnsta lækkunin í dag, og fór gengið niður í 77,30 krónur. Næst mest lækkun var á gengi bréfa Haga, eða um 1,51%, niður í 45,75 krónur, í 88 milljóna króna viðskiptum.