*

sunnudagur, 25. ágúst 2019
Innlent 13. nóvember 2017 14:41

Enn alvarlegur framboðsskortur árið 2020

Forstöðumaður hjá SA segir að þrátt fyrir viðvaranir um skort alveg frá árinu 2011 hafi ekki verið nægilegt framboð lóða.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, segir að varað hafi verið við framboðsvandanum á húsnæðismarkaði síðan árið 2011.

Þetta er meðal þess sem fram kom í umræðuþætti Íslandsbanka þar sem farið var yfir stöðuna á húsnæðismarkaði, en bankinn gaf nýlega út skýrslu þar sem því er spáð að íbúðaverð muni hækka um tæplega 12% a næsta ári og 5% árið 2019. 

„Þetta er vandi sem við vissum af,“ segir Ásdís en auk hennar tóku þátt í umræðunum Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Una Jónsdóttir, hagfræðingur Íbúðalánasjóðs, Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi og Elvar Orri Hreinsson, frá Greiningu Íslandsbanka, en horfa má á þáttinn á vef bankans.

„Það sem gerist í raun 2009 til 2012 er að byggingarkostnaður var yfir markaðsverði og því lítill hvati til að ráðast í nýbyggingar. Eftir að markaðsverð hækkar aftur skapast þessi hvati en það hefur ekki verið nægt framboð og þar á meðal lóðaframboð til að mæta þessari þörf.“ 

Ásdís segir að íslenskt hagkerfi sé líklega á toppi hagsveiflunnar um þessar mundir enda hafi kaupmátturinn verið sterkur undanfarið.

„Ef við skoðum þörfina sem Íbúðalánasjóður hefur metið sem 5000 íbúðir í uppsafnaðan framboðsskort og berum saman við tölur frá Samtökum iðnaðarins fram til ársins 2010 get ég ekki beður séð en að við verðum enn að glíma við alvarlegan framboðsskort árið 2020 á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Ásdís. 

„Það er að hægja á vexti hagkerfisins en allar spár gera ráð fyrir áframhaldandi hagvexti. Ef ég tíni til þá þætti sem hafa áhrif á fasteignamarkað þá erum við að fara að sjá verulegar hækkanir áfram. 

Miðað við þær framboðstölur sem blasa við og ber saman við eftirspurnina þá finnst mér 5-10% hækkanir ekki afskaplega miklar.“