Biðlistar eru eftir stúdentaíbúðum og leiguverð hækkað hratt eða um 8% á höfuðborgarsvæðinu síðasta árið. Enn virðist því vera mikil áskókn eftir leiguhúsnæði þrátt fyrir að markaðurinn hafi skroppið saman um 9% í fyrra miðað við árið á undan.

Greining Íslandsbanka bendir á það í Morgunkorni sínu í dag að hækkun á leiguverði sé meiri en hækkun á kaupverði á sama tíma, sem fór upp um 4,6% í fyrra. Þar er jafnframt bent á að samhliða því að velta á leigumarkaði er að dragast saman er veltan á íbúðamarkaði að aukast.

Í Morgunkorninu er bent á að mikil árstíðarsveifla sé í gögnum um leigumarkaðinn enda sé sókn í leiguhúsnæði í dvala á þessum árstíma og sé hann í vetrarham fram á vor. Eftir því sem sól hækkar á lofti og hlýnar í veðri tekur markaðurinn svo hægt og bítandi við sér uns hámarkinu nær á haustin þegar skólar byrja á ný.