Kínverski fjárfestirinn Huang Nubo hefur ekki skilað frekari gögnum um kaup á jörðinni Grímsstaði á Fjöllum. Í nóvember í fyrra tilkynnti félag hans um kaupin og að það ætlaði að skila ítarlegri gögnum til ráðherranefndar um Grímsstaði. Óskað var eftir því að nefndin tæki ekki afstöðu til kaupanna fyrr en gögnin hefðu verið lögð fram.

„Frekari gögnum hefur ekki verið skilað ennþá að mér vitandi. Ég veit að það hefur talsverð vinna staðið yfir hans megin og við höfum ekki fengið nein skilaboð um annað en að áhugi sé enn fyrir hendi á jörðinni. Menn eru bara að vinna heimavinnuna sína í samræmi við það sem var ákveðið,“ segir Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri Norðurþings, í samtali við Morgunblaðið í dag um stöðuna.

Rætt var um það á sínum tíma að gögnin bærust á næstu mánuðum.

„Þetta er bara eitt af þeim fjárfestingarverkefnum sem við höfum unnið að og viljum að sjálfsögðu leiða til lykta á faglegan hátt. Þetta er eins og hvert annað þróunarverkefni sem menn hafa viljað skoða nánar,“ segir Bergur Elías í samtali við blaðið.