„Nei, uppgjörið er ekki komið í hús ennþá. Því hefur verið lofað. Menn eiga að ljúka uppgjörum eftir hvert ár. Það er ekki í samræmi við viðteknar venjur og reglur að skila ekki uppgjöri árlega,“ segir Sveinn Arason ríkisendurskoðandi sem enn bíður eftir því að fá í hendur uppjgör og yfirlit ársreikninga Þorláksbúðarfélagsins vegna 9,5 milljóna króna styrkja til framkvæmda við Skálholt.

Sveinn hefur ítrekað farið þess á leit að Þorláksbúðarfélagið skili umræddum gögnum vegna framkvæmdanna.

Árni Johnsen.
Árni Johnsen.
© Axel Jón Fjeldsted (VB MYND/AXEL JÓN)

Þann 7. maí síðast liðinn kom fram í Morgunblaðinu að verið væri að klára að setja upp bókhaldið og gera það klárt í hendur Ríkisendurskoðunar eins og haft var eftir Sr. Agli Hallgrímssyni, sem er annar meðlimur Þorláksbúðarfélagsins ásamt Árna Johnsen, þingmanni Sjálfstæðisflokksins.

Þorláksbúðarfélagið hefur verið á fjárlögum hjá ríkinu frá árinu 2008 og alls fengið úthlutaðar 9,5 milljónir vegna verkefna á sviði Fornleifaverndar ríkisins. Til viðbótar hefur félagið fengið 4,5 milljóna króna styrk frá þjóðkirkjunni til byggingar Þorláksbúðar.

Sveinn fékk það svar frá öðrum nefndarmanna að uppgjörið hafi verið sent bókhaldsstofu fyrir um þremur vikum og sé þar verið að taka uppgjörið saman. Hann getur þó ekki getið sér til um hvenær það skili sér í hans hendur en vonar að það verði fyrr en seinna.