Kærunefnd útboðsmála hefur enn einu sinni kveðið upp áfellisdóm yfir Reykjavíkurborg. Að þessu sinni var samningur borgarinnar, um uppsetningu og rekstur hleðslustöðva fyrir rafbíla í borginni, gerður óvirkur, lagt fyrir borgina að bjóða verkið út, greiða fjórar milljónir króna í skaðabætur og að greiða þátttakanda í fyrra útboðinu skaðabætur.

Þetta er í fjórða sinn á innan við ári sem borgin er gerð afturreka af nefndinni. Þremur tilfellum hefur borgin ákveðið að skipta við fyrirtæki í eigin eigu og sleppt því að bjóða verk út. Það varðaði annars vegar kaup á raforku og hins vegar uppsetningu LED-lýsingar í borginni. Fjórða málið varðar uppsetningu á umferðarljósum í borginni en þar hefur alltaf verið skipt við Smith & Norland án útboðs. Alls hefur borginni verið gert að greiða á annan tug milljóna í sektir vegna þessa.

Í úrskurði kærunefndarinnar nú kom fram að með útboðinu, þar sem Orka náttúrunnar hafði sigur, hefði í raun verið stefnt að því að gera sérleyfissamning. Borgin byggði á því að áætlað verðmæti samningsins hefði verið undir útboðsþröskuldi sérleyfissamninga. Á það féllst nefndin ekki enda hefði borgin vanáætlað kostnað við innkaup á raforku, af sínu eigin félagi, í gögnunum. Að mati nefndarinnar hafði krafa um að lýsa samninginn óvirkan borist innan kærufrests og var á hana fallist.

„Óvirkni samningsins felur því í sér að réttur varnaraðila Orku náttúrunnar ohf. til að nýta þau stæði sem hann hefur fengið afhent til afnota og réttur hans til að krefjast afhendingar þess eina stæðis sem hann á eftir að fá afhent til afnota fellur niður. Þá fellur niður réttur fyrirtækisins til gjaldtöku á stæðum fyrir sölu á raforku og notkun á hleðslustæðum gagnvart notendum stæða. Á móti fellur niður skylda þess til að greiða varnaraðila Reykjavíkurborg fyrir afnot stæðanna sem og aðrar skyldur hans til uppsetningar hleðslustöðva, viðhalds þeirra og reksturs,“ segir í úrskurðinum.

Við ákvörðun sektar var litið til þess að ekki var um bein samningskaup að ræða – slíkt hefur vanalega verið einkennismerki borgarinnar – heldur bauð verkið út. Einnig var litið til þess að samningurinn hafði verið lýstur óvirkur en enn fremur að hann hafði gilt í átta mánuði og Orka náttúrunnar haft af honum nokkrar tekjur. Fjögurra milljóna sekt þótti því hæfileg.

Líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur borgin ekki í hyggju að bjóða umrædd verk út hið snarasta heldur er stefnt að því að greina úrskurðina, með það í huga að kanna hvort tilefni sé að reyna að fá þá fellda úr gildi fyrir dómi.