Hagkerfi Spánar skrapp saman fimmta fjórðunginn í röð og nam samdrátturinn á þriðja ársfjórðungi 0,4% og frá sama tíma í fyrra hefur hagkerfið minnkað um ein 1,7%. Í frétt Bloomberg segir að þetta muni auka þrýstinginn á forsætisráðherrann, Mariano Rajoy, um að hann óski eftir frekari aðstoð frá ESB.

Ávöxtunarkrafa á spænskum ríkisskuldabréfum hefur hækkað eftir að það fréttist að leiðtogar Evrópusambandsins ræddu ekki frekari aðstoð til Spánar á nýlegum fundi í Brussel. Rajoy hefur átt í erfiðleikum með að koma böndum á ríkisfjármálin, en halli á þeim er nú þrisvar sinnum meiri en hann má vera samkvæmt reglum Evrusamstarfsins.