Atvinnuleysi mældist 7,7% í Bandaríkjunum í nóvember. Það var 7,9% í október. Tölurnar komu flestum greiningaraðilum á óvart þegar þær voru birtar í dag en jafn lágar tölur hafa ekki sést vestanhafs í fjögur ár.

Breska ríkisútvarpið (BBC) hefur eftir John Galvin, starfandi forstöðumanni hjá tölfræðideild atvinnumálaráðuneytis Bandaríkjanna, að svo virðist sem náttúruhamfarir á borð við fellibylinn Sandy hafi ekki haft teljandi áhrif á atvinnuþáttöku í nýliðnum mánuði.

BBC tekur þó fram að atvinnuleysistölurnar ná aðeins til þeirra sem séu á skrá og séu virkir í atvinnuleit. Um leið og fólk hættir leitinni fellur það út af skránni.