Smásala dróst saman um 0,2% í Bandaríkjunum í maí. Þetta er jafn mikill samdráttur og í mánuðinum á undan. Annar eins samdráttur hefur ekki sést þar í landi um tveggja ára skeið. Samdrátturinn nær yfir flesta liði nema sölu á bílum, sem jókst um 0,8% á milli mánaða. Þrátt fyrir þetta hefur bílasala ekki verið með minna móti á árinu.

Bloomberg-fréttaveitan segir niðurstöðuna í samræmi við aukið atvinnuleysi sem er komið yfir 8% og  litlar launahækkanir og hefur eftir hagfræðingi hjá Wells Fargo að  neytendur vestanhafs haldi að sér höndum um þessar mundir. Hann gerir ráð fyrir að enn muni draga saman í smásölu.