Þjóðverjar eru svartsýnni en áður um horfur í efnahagsmálum næstu mánuði. Væntingavísitala Ifo-stofnunarinnar mælist nú 100 stig sem er 1,4 stigum lægra en í síðasta mánuði. Vísitalan hefur lækkað jafnt og þétt síðastliðið hálft ár og hefur hún ekki verið lægri síðan í febrúar árið 2010. Þetta er þvert á væntingar en meðalspá Bloomberg-fréttaveitunnar fól í sér að vísitalan færi upp í 101,6 stig.

Í umfjöllun Bloomberg um málið segir m.a. að skuldakreppan á evrusvæðinu skýri þróunina enda hafi hún komið harkalega niður á Þjóðverjum, ekki síst stórum iðnfyrirtækjum í útflutningi. Þá hefur hægt á hagvexti í Þýskalandi og mældist hann 0,3% á öðrum ársfjórðungi. Til samanburðar stóð hann í 0,5% á fyrsta fjórðungi.