Verðbólga fór úr 1,1% í september í 0,7% nú, samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. Verðbólga hefur ekki verið minni í fjögur ár eða síðan í október árið 2009. Þetta er minni verðbólga en almennt var búist við en meðalspá Bloomberg-fréttaveitunnar hljóðaði upp á óbreytta 1,1% verðbólgu.

Bloomberg segir þetta níunda mánuðinn í röð sem verðbólga er undir 2% verðbólgumarkmiðum evrópska seðlabankans.

Á sama tíma og dregið hafi úr verðbólgu er staðan ekkert sérlega góða á evrusvæðinu enda mældist rúmlega 12% atvinnuleysi að meðaltali innan aðildarríkjanna í september síðastliðnum.

BNP Paribas segir í kjölfar verðbólgutalna svo kunna að fara að evrópski seðlabankinn lækki stýrivexti sína í skugga stöðunnar innan myntsvæðisins og fari þeir við það niður í 0,25% í desember.