Verðbólga mælist nú 4,8% í Bretlandi. Hún var 0,2% meiri í mánuðinum á undan, samkvæmt upplýsingum bresku hagstofunnar sem birtar voru í morgun. Dregið hefur úr verðbólgu tvo mánuði í röð.

Matvöruverð og verð á áfengum drykkjum hækkaði um 4% á milli mánaða á sama tíma og farmiðaverð lækkaði. Á móti hefur skuldavandinn á evrusvæðinu og óvissa í efnahagsmálum í Bretlandi valdið því að Bretar hafa hert takið utan um budduna. Það hefur svo dregið úr veltu hjá umsvifamestu verslunum landsins, svo sem í Tesco.

Verðbólga hefur verið yfir 2% verðbólgumarkmiðum Englandsbanka, seðlabanka Bretlands.

Bloomberg-fréttaveitan segir þróunina nú í samræmi við spá bankans, sem geri ráð fyrir að verðbólga muni fara hratt niður að 2% verðbólgumarkmiðum bankans á næsta ári.