Marissa Mayer, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá netleitarrisanum Google, hefur verið ráðin forstjóri netfyrirtækisins Yahoo. Yahoo og Google hafa um nokkurra ára skeið keppt um hylli netverja. Heldur hefur hallað undan fæti hjá Yahoo síðustu misserin og forstjóraskiptin ansi tíð. Mayer er sem dæmi þriðji forstjórinn á síðastliðnum tólf mánuðum.

Forveri hennar, Scott Thompson, hætti störfum í maí eftir að upp komst að hann laug til um prófgráðu sína.