Myndbandaleigurnar hafa týnt tölunni hver á fætur annarri upp á síðkastið. Suðurlandsvídeó á Selfossi var úrskurðu gjaldþrota í héraðsdómi Suðurlands 10. apríl síðastliðinn. Leigan bætist í hóp með Bónusvídeói sem varð úrskurðuð gjaldþrota í júní árið 2009 og lokaði undir lok síðasta árs auk þess sem dyrum Grensássvídeós var lokað í febrúar. Skiptastjóri þrotabúsins skorar í Lögbirtingablaðinu í dag á alla þá sem telja sig eiga kröfu í búið að lýsa þeim.

Suðurlandsvídeó var með elstu myndbandaleigum landsins. Hún var stofnuð árið 1985 og og rak briddsspilarinn Aðalsteinn Jörgensen hana í um 26 ár - eða þar til í september árið 2011 þegar hann seldi reksturinn. Aðalsteinn var í liðinu sem vann heimsmeistaratitilinn í bridds þar sem tákn sigursins var Bermúdaskálin fræga sem löngum er vitnað til.

Ársreikningur Suðurlandsvídeós fyrir árið 2010 er sá nýjasti sem liggur fyrir. Hann ber með sér að hart hafi verið í ári hjá myndbandaleigum landsins. Þrátt fyrir rétt rúmlega 9 milljóna króna veltu tapaði vídeóleigan 425 þúsund krónum. Eignir námu rúmum 750 þúsund krónum og voru þar vörubirgðir mestar eða upp á hálfa milljón króna. Skuldir námu 1,7 milljónum króna og var eigið féð neikvætt um 936 þúsund krónur.

Eins og áður sagði komu nýir aðilar að rekstrinum í september árið 2011. Þeir vonuðust til að geta rekið myndbandaleiguna í ár. Kristrún Agnarsdóttir, móðir þeirra sem keyptu reksturinn, sagði í samtali við vb.is á sínum tíma stöðuna það slæma að hyggilegra hafi verið að selja lagerinn og jóla svo fyrir jólin.