Uppgjör Icelandic Group fyrir fjórða ársfjórðung 2007 var langt undir spám greiningardeildanna. Félagið hefur um nokkurt skeið valdið fjárfestum vonbrigðum. Samanlagt tap félagsins síðustu þrjú árin nemur um 55 milljónum evra, og hefur tapið aukist ár frá ári, að sögn greiningardeildar Kaupþings, sem bendir á að áralöng endurskipulagning virðist ekki hafa skilað neinum árangri. Hún segir uppgjörið mikil vonbrigði.

Félagið tapaði 29 milljónum evra á fjórðungnum en meðaltalsspá greiningardeildanna hljóðaði upp á þrjár milljónir evra. EBITDA Icelandic var 1,4 milljónir evra en meðaltalsspá var 10 milljónir evra. Tekjur fjórðungsins námu 328 milljónum evra en meðaltalsspá hljóðaði upp á 352 milljónir evra. „Tapið má að hluta rekja til slakrar afkoma Icelandic USA og Pickenpack í Frakklandi,“ segir greiningardeild Glitnis.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .