Advanced Micro Devices (AMD) hefur náð samkomulagi um kaup á keppinaut sínum í örgjörvaframleiðslu, Xilinix. Kaupin munu nema 35 milljörðum Bandaríkjadollara, verði samruninn samþykktur af eftirlitsaðilum. Fyrirtækin segja samrunann koma til með að breikka vöruframboð þeirra og efla markaðs- og fjárhagsstyrk.

Verði samruninn að veruleika, mun hann auka hagnaðarhlutfall og sjóðstreymi AMD, samkvæmt frétt WSJ . Samruninn gæti stuðlað að því að AMD nái markmiði sínu um 20% árlegan tekjuvöxt. Þá segir AMD samrunann leiða til 300 milljón dollara kostnaðarsparnaðar innan 18 mánaða.

Hluthafar Xilinix munu fá um 1,7 hluti í AMD fyrir hvern hlut sinn í Xilinix, sem felur í sér um 25% virðisaukningu miðað við virði bréfa í Xilinix á markaði.

Hlutabréfagengi AMD hefur hækkað mikið á árinu enda hefur sala á fartölvum og leikja aukist mjög í heimsfaraldri kórónuveirunnar. Auk þess hefur fyrirtækið notið góðs af aukinni sölu örgjörva fyrir gagnaver.

AMD hefur að undanförnu aukið markaðshlutdeild sína gagnvart helsta keppinaut sínum, Intel, og verði samruni þessi að veruleika mun hann auka samkeppnishæfni fyrirtækisins gagnvart Intel. Intel hefur verið í vandræðum með framleiðsluferla sína og telja greiningaraðilar að vandræðagangur Intel muni stuðla að framgangi keppinauta þeirra.

Þrátt fyrir mikinn vöxt og gott gengi AMD að undanförnu, er fyrirtækið þó töluvert á eftir Intel að mörgu leyti. Intel hefur tíu sinnum fleiri starfsmenn og velti 71,9 milljörðum dollara á síðasta ári, samanborið við 6,7 milljarða veltu AMD. Þá hefur Intel enn umtalsvert hærri markaðshlutdeild.

Umbreytingar í hálfleiðaraiðnaði

Bandaríski hálfleiðaraiðnaðurinn (e. semiconductor industry) hefur verið að ganga í gegnum miklar umbreytingar undanfarið, bæði vegna samruna fyrirtækja og heimsfaraldurs kórónuveirunnar, sem hefur stóraukið eftirspurn eftir örgjörvum.

Gangi samruni AMD og Xilinix eftir, verður hann einn sá stærsti meðal örgjörvaframleiðenda, en þó nokkrir fyrirhugaðir stórsamrunar hafa verið tilkynntir að undanförnu.

Fyrir nokkrum vikum tilkynnti örgjörvaframleiðandinn Nvidia um kaup á breska farsímaörgjörvaframleiðandanum Arm Holdings fyrir 40 milljarða dollara, en ef kaupin verða samþykkt af eftirlitsaðilum verður um að ræða stærstu yfirtöku iðnaðarins frá upphafi.

Þá tilkynnti Analog Devices um kaup á Maxim Integrated Products fyrir yfir 20 milljarða dollara í júlí síðastliðnum.

Sjá einnig: Samruni hálfleiðararisa