Alþjóðlega matsfyrirtækið Fitch Ratings hefur fært lánshæfismat Kýpur í ruslflokk. Einkunn ríkissjóðs Kýpur lækkar úr BBB- í BB+ með neikvæðum horfum. Þetta kemur fram í tilkynningu sem matsfyrirtækið sendi frá sér fyrr í morgun.

Efnahagur Kýpur er mjög tengdur efnahags Grikklands og er með evruna sem lögeyri. Kýpur hefur notið talsverðar fyrirgreiðslu frá Rússlandi að undanförnu.

Í ljósi þess að lánshæfismatið er nú komið í ruslflokk er talið fullvíst að landið muni sækja eftir neyðaraðstoð frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Ekki er þó útilokað að Rússland komi Kýpur til bjargar í þeirra stað.