Engar eignir fundust upp í tæplega 1,3 milljarða króna kröfur Íslandsbanka í þrotabú félagsins AB 154 ehf. Félagið er í eigu Vilhelms Más Þorsteinssonar, fyrrverandi forstöðumanns fjárstýringar Glitnis. Það fékk 776 milljóna króna kúlulán í erlendri mynt að láni hjá Glitni í maí árið 2008 til kaupa á hlutabréfum í bankanum. Lánið stendur nú í rúmum 1,2 milljörðum króna en eignirnar, hlutabréfin í bankanum, urðu verðlaus þegar Glitnir fór í þrot í október sama ár og Vilhelm keypti bréfin. Vilhelm Már starfar hjá Íslandsbanka í dag en hann er framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans.

Nokkrir fengu 800 milljóna kúlulán kortéri fyrir hrun

Vilhelm var einn þriggja framkvæmdastjóra hjá Glitni sem fengu hæstu lánin til hlutabréfakaupa. Hinir tveir, Jóhannes Baldursson, fyrrverandi yfirmaður markaðsviðskipta hjá Glitni, og Rósant Már Torfason, fyrrverandi framkvæmdastjóri áhættustýringar, lánaeftirlits og lögfræðisviðs bankans. Saman fengu þeir því samtals 2,4 milljarða að láni.

Fram kemur í síðasta ársreikningi félags Vilhelms fyrir uppgjörsárið 2010 að kúlulánið var á gjalddaga í maí í fyrra. Þá segir í ársreikningnum að unnið sé að samkomulagi um uppgjör lánsins en ljóst sé að eiginfjárstaða félagsins geti ekki staðið undir greiðslu þess. Því sé rekstrarhæfi félagsins háð verulegri óvissu.

AB 154 ehf var tekið úrskurðað gjaldþrota í héraðsdómi Reykjaness 8. nóvember í fyrra.