Engar eignir fundust í þrotabúi félagsins 101 Capital upp í rétt tæplega 20,4 milljarða krónur kröfur. Ingibjörg Pálmadóttir, eiginkonu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, átti félagið í gegnum Eignarhaldsfélagið ISP. Félagið var stofnað í maí árið 2007 til þess eins að fá lánað til kaupa á hlutabréfum. Félagið átti hlutabréf í fasteignafélaginu Landic Property og FL Group. Ingibjörg var stjórnarmaður í félaginu. Skuldir 101Capital eru talsvert hærri en áður var talið.

Jón Ásgeir Jóhannesson, eiginmaður Ingibjargar, var aðaleigandi Baugs Group og um tíma forstjóri. Baugur átti jafnframt stóran hlut í FL Group sem aftur var stærsti einstaki hluthafi Glitnis. Ingibjörg Pálmadóttir á nánast allt hlutafé í 365 miðlum, sem m.a. á Fréttablaðið og Stöð 2, í gegnum þrjú önnur félög.

Þrotabú Glitnis á megnið af kröfum á hendur félagi Ingibjargar, rúma 17 milljarða króna. Baugur á afganginn, kröfur upp á um tvo milljarða. Það voru lögmenn á vegum Glitnis sem óskuðu eftir því að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta skömmu fyrir síðustu áramót. Skiptum á búinu lauk í gær.

Fékk lán til að kaupa bréf frá Baugi

101 Capital hefur aðeins einu sinni skilað ársreikningi sem birtur hefur verið. Það var fyrir árið 2007, sama ár og félagið var stofnað. Tap þess árs nam um 2,3 milljörðum króna og var eigið fé í lok árs neikvætt um sömu fjárhæð. Skuldir félagsins voru þá talsvert hærri eða 9,2 milljarða króna. Félagið átti á þeim tíma hlut í Landic Property sem var metinn á nærri 7 milljarða króna.

Í umfjöllun Morgunblaðsins um 101 Capital segir að lánið sem Baugur veitti félaginu á sínum tíma hafi verið nýtt til kaupa á eignarhlut Baugs í Landic Property. Eins og áður segir var eignahlutirinn í Landic Property metinn á um 7 milljarða. Glitnir hafi lánað milljarðana fimm sem upp á vantaði. Lánið frá Glitni hafi síðan runnið til Baugs.

Bæði eignahlutir í Baugi Group og Landic Property sem 101 Capital átti eru verðlausir í dag.