Bandaríska flugfélagið Continental Airlines tilkynnti í dag að félagið hygðist segja upp allt að 3.000 manns og leggja 67 flugvélum sem hluta af niðurskurðaráætlunum félagsins.

Flugbransinn hefur átt undir högg að sækja undanfarin misseri, fyrst og fremst vegna mikilla hækkana á eldsneyti og eins vegna samdráttar í vestrænum hagkerfum sem hefur gert það að verkum að almenningur hefur dregið saman í útgjöldum, þar á meðal ferðalögum að því er Reuters fréttastofan greinir frá.

Hjá Continental starfa um 45.000 manns. Félagið hefur þegar „lagt“ sex flugvélum á þessu ári og sem fyrr segir er áætlað að búið verði að leggja 67 vélum fyrir árslok 2009. Félagið á og rekur um 375 vélar í dag.

Þá stendur til að fækka flugleiðum í haust en félagið tilkynnti sérstakleg að engum áætlunum yrði breytt í sumar.

Mörg flugfélög bregðast við samdrætti

Continental Airlines er fjórða stærsta flugfélag Bandaríkjanna en ekki það fyrsta til að tilkynna um mikinn niðurskurð. Þannig bauð Delta Airlines allt að 3.000 starfsmönnum „starfslokasamning“ áður en gengið var frá áætlunum um að sameinast Northwest Airlines fyrr á þessu ári.

Þá kynnti United Airlines svipaðar aðgerðir og Continental kynnir nú, þ.e. að segja upp starfsfólki (1.100 manns), leggja um 100 flugvélum og leggja niður flugleiðir.

American Airlines kynnti einnig svipaðar aðgerðir um miðjan maí en það félag er jafnframt eina félagið sem rukkar nú sérstakt farangursgjald. Þannig eru rukkaðir 15 dollarar fyrir fyrstu tösku en síðan fer gjaldið lækkandi. Það gjald bætist alfarið ofan á almennt fluggjald.

Mörg önnur félög hafa hækkað fluggjöld með tilliti til hækkandi eldsneytiskostnaðar.