*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Erlent 20. október 2021 14:11

Enn eitt höggið fyrir Evergrande

Slitnað hefur upp úr viðræðum Evergrande um 330 milljarða króna sölu á ráðandi hlut í fasteignarekstrarfélagi.

Ritstjórn
Höfuðstöðvar Evergrande í Hong Kong.
epa

Kínverski byggingarrisinn Evergrande tilkynnti í dag um að slitnað hafi upp úr viðræðum við Hopson Development um sölu á 50,1% hlut í fasteignarekstrarfélaginu, Evergrande Property Services, en talið var að salan hefði numið um 2,6 milljörðum Bandaríkjadala eða um 330 milljarða króna króna. Um er að ræða enn eitt höggið fyrir fyrirtækið sem stendur nú í björgunaraðgerðum til að komast hjá gjaldþroti. Reuters greinir frá.

Lokað var á viðskipti með hlutabréf Evergrande, Evergrande Property Services Group og Hopson Development síðan 4. október þegar fyrst var tilkynnt um viðræðurnar. Fyrirhugað er að opnað verði aftur á viðskipti með hlutabréf félaganna á morgun.

Evergrande er skuldsettasta fasteignafélag heims en félagið skuldar yfir 300 milljarða dala. Fasteignarisinn hefur ekki staðið skil á þremur vaxtagreiðslum á alþjóðlegum skuldabréfum.

Sjá einnig: Hætta við kaup á höfuðstöðvum Evergrande

Í lok síðustu viku hætti Yuexiu Property, byggingarfyrirtæki er í eigu kínverska ríkisins, við kaup 220 milljarða króna kaup á höfuðstöðvum Evergrande vegna ótta yfir að fjárhagsvandræði fasteignafélagsins myndu torvelda viðskiptin.